Tveir kjötiðnaðarnemar frá Kjarnafæði ljúka sveinsprófi

Það voru tveir vaskir nemar frá Kjarnafæði, þeir Grétar Baldvinsson og Jón Þór Guðmundsson sem lögðu í ferðalag til höfuðborgarinnar til að sanna kunnáttu sína og færni í kjötiðn. Meistarar í fræðunum voru að sjálfsögðu einnig mættir sem prófdómarar til að dæma þá og meta. Nemarnir hafa síðastliðin fjögur ár verið í verklegu námi hjá Kjarnafæði og bóklegu hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Það voru tveir vaskir nemar frá Kjarnafæði, þeir Grétar Baldvinsson og Jón Þór Guðmundsson sem lögðu í ferðalag til höfuðborgarinnar til að sanna kunnáttu sína og færni í kjötiðn. Meistarar í fræðunum voru að sjálfsögðu einnig mættir sem prófdómarar til að dæma þá og meta. Nemarnir hafa síðastliðin fjögur ár verið í verklegu námi hjá Kjarnafæði og bóklegu hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Okkar menn mættu galvaskir í húsakynni MK í Kópavogi og tóku til við að framleiða dýrindis vínarpylsur og bratwurst. Farið var yfir framleiðsluaðferðir og sprautuðu strákarnir í gervigarnir og suðu loks pylsurnar. Þá var farið yfir lúxusskinkur sem nemarnir sendu inn og að lokum söguðu þeir lambaskrokk eftir kúnstarinnar reglum. Seinni daginn var prófun í úrbeiningu á flestum tegundum kjöts og fengu strákarnir að spreyta sig og sýna færni sína. Prófinu lauk með uppsetningu í kjötborð þar sem sýndar voru afurðir þessara tveggja daga. Að sjálfsögðu stóðu strákarnir sig með sóma og voru til fyrirmyndar. Öll vinnubrögð afbragð og fagmennskan í fyrirrúmi. Það kom svo á daginn að þeir voru efstir í sveinsprófinu að þessu sinni.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að Kjarnafæði útskrifi nú tvo kjötiðnaðarmenn í stétt sem hefur mikla þörf fyrir endurnýjun“ segir Eiður Gunnlaugsson framkvæmdastjóri Kjarnafæðis og bendir á að nú í þessu árferði séu einnig sóknarfæri, „ef ekki nú þá hvenær“.

Þeir Grétar og Jón Þór bætast í fríðan hóp kjötiðnaðarmanna/kvenna og meistara hjá Kjarnafæði sem eru óðum að nálgast annan tuginn. Þessir nýju kjötiðnaðarmenn falla nú inn í hóp framsækinna og metnaðargjarnra fagmanna hjá Kjarnafæði sem vilja ná langt og vera sér og sínu fyrirtæki til sóma. Helgi Jóhannsson Kjötmeistari Íslands sem að sjálfsögðu er starfsmaður Kjarnafæðis er því kominn með enn harðari samkeppni en áður.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að nemarnir okkar sem eru þeir fyrstu í áratug sem ljúka bóklega og verklega náminu að öllu leiti í Verkmenntaskólanum á Akureyri skuli standa sig svona frábærlega. Þetta er vítamínsprauta fyrir námið hér fyrir norðan sem er að taka sín fyrstu skref eftir alltof langt hlé. Þetta hvetur okkur til frekari sóknar“ segir Eðvald Valgarðsson, gæðastjóri Kjarnafæðis sem fylgdist með nemunum í prófinu.