Þrjár matreiðslukeppnir á þremur dögum

Klúbbur matreiðslumeistara stendur fyrir þremur matreiðslukeppnum á þremur dögum á sýningunni Ferðalög og frístundir sem haldin verður í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal 8.-10. maí nk. Sú fyrsta, sem fram fer föstudaginn 8. maí, ber yfirskriftina Matreiðslumaður ársins, önnur keppnin, Matreiðslumeistari Norðurlanda, fer fram laugardaginn 9. maí og landshlutakeppnin Íslenskt eldhús 2009 verður haldin sunnudaginn 10. maí.

Klúbbur matreiðslumeistara stendur fyrir þremur matreiðslukeppnum á þremur dögum á sýningunni Ferðalög og frístundir sem haldin verður í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal 8.-10. maí nk. Sú fyrsta, sem fram fer föstudaginn 8. maí, ber yfirskriftina Matreiðslumaður ársins, önnur keppnin, Matreiðslumeistari Norðurlanda, fer fram laugardaginn 9. maí og landshlutakeppnin Íslenskt eldhús 2009 verður haldin sunnudaginn 10. maí.

Á sýningunni Ferðalög og frístundir sameinast á einum stað allt sem viðkemur ferðalögum, frístundum og afþreyingu, innanlands og utan. Sýningin Golf 2009 verður haldin samhliða Ferðalögum og frístundum – og kjarninn í ferðasýningunni verður Ferðatorgið, þar sem ferðamálasamtök landsins kynna hvert sinn landshluta og ferðaþjónustu á sínu svæði. Á Matartorginu verða svo matreiðslukeppnirnar þrjár, en matarmenning er samofin velheppnuðum ferðalögum og frístundum og fellur því vel að sýningunni.

Matreiðslumaður ársins:

Keppnin Matreiðslumaður ársins fer fram föstudaginn 8. maí. Sú keppni hefur verið haldin árlega allt frá árinu 1994. Þar hafa fjölmargir færir matreiðslumenn komið fram á sjónarsviðið og síðan gert garðinn frægan í öðrum keppnum. Sigur í keppninni Matreiðslumaður ársins veitir keppnisrétt í keppnunum Matreiðslumeistari Norðurlanda, Global Chef Challenge, One World competition o.fl. Oft hafa keppendur þurft að kafa djúpt í reynslubankann, þar sem skylduhráefni hefur verið t.d. nýru, lifur, ferskir hrútspungar, kúfskel, hörpuskel og lambaframpartur, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Matreiðslumeistari Norðurlanda:

Samtímis sýningunni fer fram í Reykjavík Norðurlandaþing Klúbbs matreiðslumeistara. Í tengslum við þingið verður haldin keppnin Matreiðslumaður ársins á Norðurlöndum, sem ennfremur fer fram á sýningunni Ferðalög og frístundir laugardaginn 9. maí og verður keppt í fimm keppniseldhúsum fyrir framan sýningargesti. Norræna keppnin er haldin árlega en hún var síðast haldin hér á landi árið 1999. Verðlaun til sigurvegara keppnanna Matreiðslumaður ársins og Matreiðslumeistari Norðurlanda verða afhent við sameiginlega athöfn síðdegis laugardaginn 9. maí.

Íslenskt eldhús 2009 – það besta úr matarkistu hvers landshluta:

Rúsínan í pylsuendanum verður svo matreiðslukeppni landshlutanna, Íslenskt eldhús 2009, sem fram fer á sama stað sunnudaginn 10. maí. Keppnin er haldin af Klúbbi matreiðslumeistara og sýningunni Ferðalögum og frístundum. Landshlutarnir senda keppendur og dómara til þátttöku og notar hver keppandi hráefni sem tengist viðkomandi landshluta. Markmið keppninnar er að kynna það besta sem hver landshluti hefur upp á að bjóða í mat og vekja athygli á því sem Ísland hefur upp á að bjóða sem matarkista. Keppendur koma frá Vestfjörðum, Austurlandi, Norðurlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Suðurnesjum, en síðastnefndu landshlutarnir tveir sameinast um einn keppanda. Tilkynnt verður um úrslit við formlega athöfn í lok dagsins, þar sem veitt verða verðlaunin „Íslenskt eldhús 2009“. Keppt verður fyrir opnum tjöldum, þannig að gestum gefst færi á að fylgjast með matreiðslumeisturunum að störfum – og gildir það um allar þrjár keppnirnar.