Kjarni jólanna

Margrét Blöndal og Felix Bergsson í þættinum Bergsson og Blöndal á Rás 2 hafa í desember leitað að hinum eina sanna kjarna jólanna. Hlustendur gátu sent inn hugleiðingar eða góðar sögur um kjarna jólanna. Margar frábærar sögur komu en Margrét og Felix völu úr ólíkar sögur sem lýstu á skemmtilegan og hugljúfan hátt góðum íslenskum jólum. Vinningshafarnir hlutu síðan glæsilega matarkörfu frá Kjarnafæði að launum.

Margrét Blöndal og Felix Bergsson í þættinum Bergsson og Blöndal á Rás 2 hafa í desember leitað að hinum eina sanna kjarna jólanna. Hlustendur gátu sent inn hugleiðingar eða góðar sögur um kjarna jólanna. Margar frábærar sögur komu en Margrét og Felix völu úr ólíkar sögur sem lýstu á skemmtilegan og hugljúfan hátt góðum íslenskum jólum. Vinningshafarnir hlutu síðan glæsilega matarkörfu frá Kjarnafæði að launum.

Þóra Guðnadóttir sendi inn þessa frásögn:

Oft erum við á spretti í margar vikur að undirbúa komu jólanna en eitt árið varð þetta öðruvísi hjá fjölskyldu minni.Þann 26. nóvember árið 2006 lenti elsti sonur minn þá 36 ára gamall í slysi og slasaðist lífshættulega. Öll tilveran fór á hvolf, hann þessi stóri og sterki björgunarsveitarmaður sem ótal sinnum hafði bjargað mannslífum var nú ekki hugað líf eftir að hafa fengið áverka á hjarta, lungu og rifbein.

Í aðdraganda jólanna fór hann í margar aðgerðir og  honum var haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítalans  Nokkrum sinnum var ég búin undir það að kveðja hann í hinsta sinn og á hverjum degi sat ég hjá honum talaði við hann, bað fyrir honum og jafnvel söng vögguvísur fyrir hann undir nóttina. Jólaundirbúningurinn fór fyrir ofan garð og neðan hjá fjölskyldunni. Við fjölskyldan vorum umvafinn bænum frá frændfólki, vinum og jafnvel fólki sem við þekktum ekki neitt. Allir báðu um bata fyrir son minn og styrk fyrir okkur öll. Meira segja litlu frændsystkini hans sögðust bara vilja fá í jólagjöf að frænda þeirra batnaði. 22. des. kom ég á gjörgæsluna og yfirlæknirinn Alma Möller kom til mín og sagði: "Til hamingju með daginn. Við ætlum að vekja hann og færa hann af gjörgæslunni yfir á hjartaskurðdeild. Hann mun ná sér".

Þetta var besta jólagjöfin sem ég hef fengið og á aðfangadagskvöld vorum við hjá honum ég og maðurinn minn. Sonur minn gat ekkert borðað ennþá og jólamaturinn hans þetta árið var ís, sem ég þurfti að mata hann á. Við vorum þarna þrjú saman, kyrrð var yfir öllu og við hlustuðum á messuna í útvarpinu. Þá fundum við það að ytri umgjörð jólanna, gjafir, skreytingar og annað sem jólunum fylgir skapar ekki hinn sanna jólaanda.

Kjarni jólanna er kærleikur. Óendanlegur kærleikur og þakkir fylltu hjörtu okkar. Kærleikur til allra sem beðið höfðu með okkur um bata, honum til handa alla Aðventuna og þakkir til Guðs fyrir þessa gjöf sem hann gaf okkur.  

Í framhaldi af þessu er kannski gaman að segja hvernig þessi saga endaði. Um vorið fór hann í endurhæfingu á Reykjalund og þar kynntist hann ástinni sinni. Hún var hjúkrunarkona á deildinni sem hann var á. Þau byrjuðu að búa saman fyrir síðustu jól og nú á þessum jólum eiga þau von á barni. Það barn mun væntanlega fæðast einhvern jóladaganna og er svo innilega velkomið í heiminn. Við munum öll taka á móti því og umvefja þann kærleika og ást.  

Unnur Guðjónsdóttir sendi inn þessa sögu:

Þegar ég var lítil stúlka (ég er 48 ára í dag) þá reykti pabbi minn en hann reykti aldrei inni þannig að hann  fór oft út í stutta göngutúra. Á aðfangadag þá borðuðum við alltaf klukkan 18 og þegar búið var að ganga frá eftir matinn þá fór okkur til mikillar mæðu pabbi út í göngutúr og við biðum viðþolslaus inni á meðan. Einn daginn ákváðum við systkinin sem erum 6 að fara bara með honum í von um að geta hraðað göngutúrnum og komum til baka alsæl og hress og kát.

Í dag þá hittumst við alltaf úti eftir matinn á aðfangadagskvöld mín fjölskylda, ein systir mín og hennar fjölskylda og bróðir minn með hundinn sinn við erum ca. 19 og förum í smá göngutúr, ef er nægur snjór þá eru litlu börnin dregin á þotu. Alveg sama hvernig veðrið er þá vill enginn sleppa þessu, við göngum bara styttra ef veðrið er slæmt. Það er eins og allt stress fjúki úr okkur í göngutúrnum og allir verða ferskir og klárir í pakkana og börnin mun rólegri.

Að lokum, pabbi er löngu hættur að reykja.

Lísbet Harðardóttir Ólafardóttir sendi inn þessa frásögn:

Þegar ég velti fyrir mér kjarna jólanna skjótast óteljandi hugmyndir um hina sönnu fegurð upp í kollinn á mér. Ég sé fyrir mér fallegt fólk, á fallegri stundu, góðan mat og gleðibros. Um leið er hinn helmingur hugans æstur, skýtur þessar hugsanir niður með rökhyggju og siðferðispistlum og er tilbúinn til varnar allri hugsanaslepju um trúarleg gildi og falleg boðorð sem kennd voru fyrir mörg þúsund árum, en enginn virðist fara eftir í dag.

Ég held að ég sé orðin svolítið uppgefin á jólunum, og það er samt bara 1. desember. Hvernig er svosem annað hægt, þegar allt virðist fara á hraðspól í lífinu um leið og árið tekur að stytta?  Eftir rólegheitahaust þar sem fólki má leiðast heima eða yfir skólabókum á kvöldin, tekur við menningartryllingur og engum gert það kleift að standa skil á allri þessari dobíu af afþreyingu sem troðið er á hvert kvöld á aðventunni.  Eftir að hafa kúrt í eigin horni í nokkra mánuði er eins og allir ætli að hittast... í einu. Sama hvort það er tónlistarlíf, leik og grunnskólar eða vinnustaðir – allt iðar af lífi og gerir sterkar kröfur á nærumhverfi sitt að iða með. Allir hlakka svo mikið til jólanna að ekki má bíða lengur en fram í nóvember með að byrja undirbúning. Fólk fer meir að segja á þar til gerð hlaðborð, eingöngu til að geta borðar jólamatinn tvisvar.... eða jafnvel oftar!   Mörgum finnst jólin hafa snúist upp í algjöra mótsögn við þann boðskap sem þeim var ætlað að bera og fyrir allt of mörgum eru jólin orðin kvíðavaldandi hugtak, með of miklu glysi og gotterí sem enginn virðist hafa stjórn á. 

En bíðum við... Getur það verið að ég sé orðin jólabitur? Akkúrat núna, þegar ég skrifa þennan pistil, orðin dulítið örg og tilbúin í slag, þá kemst ég ekki lengra.  Allt í einu þröngvar sér upp í kollinn á mér saga af syni mínum. Hún útskýrir þetta eiginlega allt, og ég get svo svarið það, allt í einu brosi ég út í annað.    Sonur minn er keppnisprakkari af bestu sort. Hann er þessi týpa sem nær að setja allan heiminn á hvolf án þess að nokkur sjái hann að störfum. Hann gæti haldið námskeið í því að komast upp með skammarstrik sem ekki einu sinni Emil í Kattholti dytti í hug að væru möguleg. Engin hefur kennt mér að sýna þolinmæði eins og hann.

Einu sinni, rétt fyrir jól kom ég að þessum ljúfa dreng með varalit í annarri hendi og neðripartinn af hvítum silkikjól í hinni. Á kjólinn voru allt í einu komnar tvær svakalegar línur sem náðu frá faldi og upp á brjóst. Ofan á þessum línum var svo kúla, og þar ofan á, rétt við brjóstsauminn var keilulaga form. Sonur minn tók ekkert eftir mér og dundaði sér rólegur við listaverkið grunlaus um að öndunarstarfsemi móður hans var ansi hætt komin fyrir aftan hann. Ég þarf varla að útskýra það nánar – en áfallið var algjört.  Jólin náðu að gufa upp á staðnum og ég vissi ekki hvort ég ætti að skamma hann sjálf – eða hreinlega hringja á lögregluna, því þetta gat ekki verið löglegt, svona korter í jól! . ( þetta átti sér raunverulega stað kl. 17:45 á aðfangadag).  Ég stóð stjörf í góða stund þar til að allt í einu hann áttaði sig á því að ég stæði fyrir aftan hann.  Hann ljómaði í framan, spenntist allur upp og gargaði “Gleðileg jól mamma – ég gerði kjólinn þinn að JÓLAkjól.  Nú getur þú sko verið fín, ha!” Eins og gefur að skilja gat ég ekki ávítað drenginn fyrir þetta dásamlega skammarstrik, því hann var jú í sinni allra dýpstu einlægni að aðstoða mig við að komast í það form sem ég þráði fyrir jólin. Í heilan mánuð hafði hann horft á mig punta heimilið, sjálfa mig og samböndin í kringum okkur.

Við mættum á allskonar skemmtilega viðburði og gerðum allt sem var gaman og gott. Ekkert var “næstum” fínt og hvergi var “nokkurn veginn” gengið  í verkin, hvorki í innkaupum né innræti. Þegar þetta atvik rifjast upp fyrir mér, hverfur allur pirringur yfir jólavertíðinni og ég sé hana í nýju ljósi. Allt í einu finnst mér öll efnishyggjan, útlitsdýrkunin, kauptryllingurinn og skammtímagóðverkin vera jafnfalleg og hvíti silkikjóllinn með jólasveininum. Getur ekki bara verið að við séum öll á leið í sömu átt, en notum bara mismunandi aðferðir á göngunni? Kannski erum við bara leikskólabörn í desember, og springum út í öllum þessum “uppáhöldum” sem við höfum haldið í okkur í heilt ár.

Kjarni jólanna er jú, að skarta sínu allra fegursta yfir hátíðarnar, að utan sem innan. Kjarninn er einmitt að gera það sem okkur finnst best, á þann hátt sem við kunnum og erum fær um  að gera í lífi okkar.  Fólk temur sér betri hegðun, frjálsari langanir og opnari hug yfir jólin.  Óvinir eiga það til að sættast, því það eru jól.  Skyndilega sé einhverja undarlega fegurð í öllum sturluðu auglýsingunum frá líkamsræktarstöðunum sem vilja koma okkur í toppform á tveimur dögum.  Tilboð fataverslana á spariklæðnaði öðlast nýja merkingu og ég stend mig allt í einu að því að langa svolítið að fara á svona hlaðborð... einfaldlega af því ég get það! Ég sá undarlega skýran tilgang með allri þessari eðaldagskrá og afþreyingu sem troðið er á allt of stuttan mánuð. Í desember fáum við að vera börn, borða kökudeig og hafa úr allt of miklu ágæti að velja.   

Að sjálfsögðu erum við öll í sama tilgangi hérna. Að líða sem best, vera sem ljúfust, og upplifa allt það sem okkur þykir allra best af öllu, hvort sem um ræðir í menningarlífi, matarræði, útliti eða innræti. Því það er jú hinn sanni kjarni jólanna. Allt í einu var ekkert við Jólaháka að sakast, ekki frekar en við son minn. Við erum öll að vanda okkur, við ætlum öll að skína, enginn skal fara á mis. Við gerum það bara á mismunandi hátt.

Kristrún Stefánsdóttir sendi inn þessa sögu:

Þannig var að ein jólin fyrir nokkrum árum þegar kom að því að velja jólagjöf handa manninum mínum og fór  að hugsa hvað það gæti verið, þá kom upp þessi hugmynd að “gefa barn”. Við höfðum rætt það lengi að styrkja barn hjá einhverju hjálparsamtökum en einhverra hluta vegna var aldrei neitt úr því. Ég kynnti mér því hvernig við gætum nú látið verða að þessu. Þetta var í byrjun nóvember og ég ákvað því að “gefa” mínum manni barn í jólagjöf. Ég var svakalega spennt og hélt þessu leyndu fyrir heimilisfólkinu. Og það get ég sagt að ég hef aldrei gefið gjöf sem hefur glatt jafn mikið og þegar ég gaf manninum mínum hann Allan frá Úganda í jólagjöf.  Tengdamóðir mín var hjá okkur þessu jól og er eldri en tveggja vetra og hún sagðist aldrei hafa séð jafn fallega jólagjöf. Og það runnu niður nokkur tár hjá viðstöddum en það voru auðvitað gleðitár.

Við fáum alltaf fréttir af Allan og borgum smáræði á hverjum mánuði sem dugar fyrir helstu nauðsynjum svo sem skóla, mat og heilsugæslu. Síðan fær hann jólagjöf frá okkur og svo sendum honum alltaf eitthvað smá auka, og fáum svo bréf, myndir og fréttir af honum sem hann skrifar sjálfur til okkar. Og eitt er víst að okkur þykir alltaf gaman að fá þetta frá honum. Það eru fjölmargir sem “eiga” svona börn og það er gott að geta látið eitthvað gott af sér leiða, hvort sem það er hér heima eða úti í heimi.

Jóna Símonía sendi þessa sögu inn:

Þegar ég var unglingur eignaðist ég gamla bók eftir Eyjólf Guðmundsson sem heitir Vökunætur II, veturnætur. Í bókinni segir hann m.a. frá jólaföstu og jólum í barnæsku sinni. Í inngangi bókarinnar segir: "Skammdegið er skuggalegt, en það er dularfullt. Vetrarnætur eru langar, ýmist niðdimmar eða þá glansandi af tunglsljósi, sem skapar nýja jörð í óteljandi myndum. Margir kviðu skammdeginu og sögðu: "það er ársins óskemmtilegasti tími." Aldrei samsinnti ég þessu, en ég var ekki óhræddur við það. Líkast því að leggja upp með von og ótta í öræfin og búast við að hitta þar fáséð gæði og þá líka útilegumenn. Skammdegið er tími ævintýra"

Strax við lestur þessa inngangs, sem lýsir svo vel minni eigin upplifun af skammdeginu, tók ég ástfóstri við bókina og hún hefur verið helsta húslestrarbókin mín á aðfangadagskvöld í mörg ár. Frásagnir Eyjólfs eru svo einlægar og fallegar, hátíðleiki jólanna í samfélagi þar sem ekki var mikið til, tilhlökkunin og gleðin heilluðu mig alveg og í mínum huga er kjarni jólanna einmitt þessi tilhlökkun og gleði í skammdeginu - ljósin (þá ekki síst tungl, stjörnur, norðurljós og kertaljós), maturinn og hátíðleikinn. Ilmurinn af hangikjötinu á Þorláksmessukvöldi - jólakveðjurnar í útvarpinu og jólaklukkurnar á aðfangadagskvöld. Fáum hefur tekist eins vel að lýsa þessari tilhlökkun, gleði og hátíðleik jólanna og Stefáni frá Hvítadal í kvæði sínu Jól:

“Ó, blessuð jólin,
Hver bið mér sveið.
Í klæðunum nýju
Ég kveldsins beið.
Það skyggði aldrei,
Hvert skot var ljóst.
Ég fylltist gleði,
Er fólkið bjóst.
Að sjöttu stundu
Um síðir dró.
Kveldið var heilagt,
Er klukkan sló.
Þá hljóðnaði fólkið.
Ég heyrði og fann,  
að ljóssins englar
þá liðu í rann.”