Kjarnafæði og Norðlenska hefja viðræður um samruna

Kjarnafæði á Svalbarðseyri
Kjarnafæði á Svalbarðseyri

Eftirfarandi fréttatilkynning var send í morgun til fjölmiðla og birtist hér fyrir neðan. 

Eigendur Kjarnafæðis og Norðlenska hafa komist að samkomulagi um að hefja viðræður um samruna félaganna. Kjarnafæði er í eigu bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona, en Norðlenska er í eigu Búsældar, sem aftur er í eigu um 500 bænda.
Með samruna félaganna verður til öflugur aðili í íslenskri matvælaframleiðslu. Það er mat eigenda félaganna að sameinað félag sé betur í stakk búið til að veita viðskiptavinum sínum og birgjum, ekki síst bændum, hágæða þjónustu á samkeppnishæfu verði.
Viðræður fyrirtækjanna eru með fyrirvara um áreiðanleikakönnun, samþykki Samkeppnisyfirvalda og samþykki hluthafafundar Búsældar.
Íslandsbanki veitir samrunafélögunum ráðgjöf í samrunaferlinu.

Um Kjarnafæði: Kjarnafæði var stofnað árið 1985 af bræðrunum Eiði og Hreini Gunnlaugssonum og framleiðir úrval kjötvara, einkum undir vörumerkinu Kjarnafæði. Hjá félaginu starfa 130 manns og fer starfsemin að mestu fram á Svalbarðseyri. Til viðbótar við rekstur Kjarnafæðis er afurðarstöð SAH á Blönduósi í sömu eigu ásamt um 34% hlut í Sláturfélagi Vopnfirðinga, þar sem rekin eru sauðfjársláturhús.

Um Norðlenska: Norðlenska varð til árið 2000 við samruna KEA og Kjötiðjunnar Húsavík, en stækkaði árið 2001 þegar félagið sameinaðist þremur kjötvinnslum Goða. Félagið er í eigu Búsældar, félags kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austur- og Suðausturlandi, en hluthafar Búsældar eru um 500 bændur. Um 190 ársverk eru unnin hjá félaginu og skiptist starfsemin á milli Akureyrar, þar sem rekið er stórgripasláturhús og kjötvinnsla, Húsavíkur, þar sem rekin er sauðfjársláturhús og kjötvinnsla fyrir sauðfjárafurðir, Hafnar í Hornafirði þar sem rekið er sláturhús og söluskrifstofu í Reykjavík. Félagið framleiðir úrval kjötvara, einkum undir vörumerkjunum Norðlenska, Goði, Húsavíkurkjöt, KEA og Bautabúrið.