Hafsteinn Ólafsson er Kokkur ársins

Þeir höfðu gott tilefni til að fagna
Þeir höfðu gott tilefni til að fagna

Klúbbur matreiðslumeistara sem Kjarnafæði er samstarfsaðili að hélt glæsilega keppni um Kokk ársins 2017 í síðustu viku sem endaði með úrslitakeppni á laugardaginn. Eftir harða og mikla keppni þar sem bestu kokkar landsins mættust voru það aðeins fimm af þeim bestu sem elduðu á laugardaginn. Úr þeirra hópi þótti Hafsteinn Ólafsson frá Sumac Grill + Drinks skara framúr og er hann því Kokkur ársins 2017. Í öðru sæti hafnaði Garðar Kári Garðarsson frá Deplar Farm og fyrrverandi kokkur á Strikinu. Í þriðja sæti var svo Víðir Erlingsson af veitingastað Bláa lónsins. 

Við í Kjarnafæði viljum að sjálfsögðu óska Hafsteini og öllum öðrum til hamingju með árangurinn en samkvæmt fréttatilkynningu Klúbbs matreiðslumeistara var mjótt á munum í efstu sætunum. Það kom þó í hlut 11 manna dómnefndar sem leidd var af Krister Dahl, margverðlaunuðum í keppnismatreiðslu og sem stýrir eldhúsum Gothia Towers í Gautaborg, að velja þann sem þótti skara framúr af þeim 5 sem kepptu til úrslita. Auk þeirra sem nefndir hafa verið hér voru Bjarni Viðar Þorsteinsson af Sjávargrillinu og Rúnar Pierre Heriveaux af Grillinu á Hótel Sögu.

Krister Dahl sem meðal annars stýrir 1 stjörnu Michelin veitingahúsinu Upper House var ánægður með keppnina og íslensku kokkana og eins og fram kemur í fréttatilkynningu, hafði meðal annars þetta að segja; „Það er greinilegt að keppendur koma vel undirbúnir til leiks og samkeppnin er hörð, ég verð að hrósa þessum ungu íslensku kokkum fyrir þeirra framlag og er sérstaklega hrifinn af sigurvegaranum sem kom og heillaði dómnefndina með sínum flotta mat og faglegu vinnubrögðum. Ísland er svo sannarlega komið á kortið sem hágæða matarland og íslenskir kokkar standa sig afar vel í alþjóðlegum samanburði t.d. í alþjóðlegum matreiðslukeppnum“.