Gull og silfur til kokkalandsliðsins á Ólympíuleikunum

Liðið á verðlaunapalli
Liðið á verðlaunapalli

Íslenska kokkalandsliðið fór vel af stað um helgina á Ólympíuleikunum í matreiðslu sem fram fer í Þýskalandi. Það fékk gull og silfur fyrir kalda borðið sitt en keppt var í gær, sunnudag. Íslenska landsliðið hefur lagt mikið í undirbúning á keppninni eins og lesa má um hér að neðan í tveimur samsettum fréttatilkynningum frá Þýskalandi. Kjarnafæði er samstarfsaðili landsliðsins og vilja starfsfólk fjölskyldufyrirtækisins koma á framfæri hamingjuóskum til hópsins og vonar að áframhald verði á góðu gengi liðsins á þriðjudaginn þegar næsta keppnisgrein fer fram.   

Kokkalandsliðið fékk gull og silfur fyrir kalda borðið sitt á Ólympíuleikunum í Þýskalandi. Liðið hlaut gullverðlaun fyrir eftirrétti (pastry) og silfur fyrir aðra rétti.

“Þetta er frábær árangur hjá liðinu. Við höfum lagt nótt við dag að gera borðið einstakt. Síðustu 18 mánuði höfum við æft stíft fyrir keppnina og það er að skila sér með þessum árangri. Gull í eftirréttum er virkilega ánægjulegt. Í Kokkalandsliðinu er ungt fólk sem hefur náð vel saman í mjög ströngu ferli og hefur verið að leggja gríðarlega mikið á sig í undirbúningnum,” segir Þráinn Freyr Vigfússon þjálfari Kokkalandsliðsins.

Kokkalandsliðið leggur áherslu á að nota hágæða íslenskt hráefni í réttina sína. Á sýningarborðinu eru þrír forréttir, fjölbreyttir veisluréttaplattar, fimm rétta veislumatseðill, grænmetismatseðill, fingrafæði og margvíslegir eftirréttir og sykurskraut. Liðið hóf að undirbúa uppskriftir að réttunum fyrir 18 mánuðum. Innblásturinn er sóttur í Ísland og það sem land elda og íss gefur okkur.

Borðbúnaðurinn er einnig mikilvægur, en öll hráefni eru íslensk og var hönnun og framleiðsla í höndum HAF Studio. Borðbúnaðurinn er unninn úr íslensku birki, keramik, grásteini og glerungi.

Kokkalandsliðið keppir í tveimur greinum á Ólympíuleikunum í matreiðslu, IKA Culinary Olympics, sem fram fara í Þýskalandi. Liðið keppir í seinni keppnisgreininni, þar sem keppt er í heitum þriggja rétta máltíðum þriðjudaginn 25. október.

Á miðvikudag ræðst síðan í hvaða sæti Ísland lendir í heildina þegar allar þjóðirnar hafa lokið keppni og endanlegur stigafjöldi liggur fyrir.

Í Kokkalandsliðinu eru:
Hafliði Halldórsson framkvæmdastjóri liðsins 
Þráinn Freyr Vigfússon faglegur framkvæmdastjóri 
Bjarni Siguróli Jakobsson fyrirliði 
Björn Bragi Bragason forseti KM/framkvæmdastjórn 
Steinn Óskar Sigurðsson liðsstjóri 
Jóhannes Steinn Jóhannsesson liðsstjóri 
Fannar Vernharðsson 
Ylfa Helgadóttir 
Hafsteinn Ólafsson 
Axel Clausen 
Garðar Kári Garðarsson 
Hrafnkell Sigríðarson 
Atli Þór Erlendsson 
Sigurður Ágústsson 
Georg Arnar Halldórsson
María Shramko

Þá er rétt að minna á Instagram síðu liðsins sem er icelandicculinaryteam og Twitter reikningur liðsins er kokkalandslidid.