Skilyrði fyrir samruna Kjarnafæðis, Norðlenska og SAH uppfyllt

Samkomulag um samruna Kjarnafæðis, Norðlenska matborðsins og SAH afurða var undirritað í júlí 2020. Samkeppniseftirlitið heimilaði samrunann með skilyrðum hinn 12. apríl síðastliðinn og síðan hafa stjórnir og stjórnendur félaganna unnið að því hörðum höndum að uppfylla skilyrðin til að fá heimild til að framkvæma samrunann.  Nú hafa þau skilyrði verið uppfyllt og geta samrunafélögin því hafið sameiningarferlið.

 

Ljóst er að rekstrarskilyrði félaganna hafa versnað verulega á liðnum árum og auk þess hafa áhrif samdráttar í kjölfar COVID-19 gert þá stöðu enn þyngri.  Sameining félaganna og sú hagræðing sem stefnt er að með henni er nauðsynleg svo standa megi vörð um þá mikilvægu framleiðslu og þá þjónustu sem félögin veita bændum, viðskiptavinum og neytendum. Vonir standa til þess að samruni félaganna verði formlega frágenginn í lok sumars en eigendur samrunafélaganna hafa komið sér saman um að formaður stjórnar sameinaðs félags verði Helga Björk Eiríksdóttir og forsvarsmaður félagsins verði Ágúst Torfi Hauksson.

 

Eiður Gunnlaugsson, stjórnarformaður Kjarnafæðis: „Það hefur verið langur aðdragandi að þessari sameiningu og mikið gleðiefni að nú sé komin endanleg heimild frá Samkeppniseftirlitinu til að framkvæma samrunann. Ytra umhverfið hefur verið rekstri sem þessum þungt undanfarið og staða félaganna sem nú munu sameinast hefur veikst frá þeim tíma þegar skrifað var undir samkomulag um samruna fyrir rúmu ári síðan.  Verkefnið er því stærra nú en þegar lagt var af stað en ekki síður mikilvægt því hagsmunirnir eru miklir fyrir þau svæði sem félögin starfa á og fyrir þá aðila sem þau hafa veitt, og munu áfram veita framúrskarandi þjónustu.“

 

Rúnar Sigurpálsson, stjórnarformaður Norðlenska: „Það er afskaplega mikilvægt að endanleg niðurstaða liggi fyrir enda mikið í húfi fyrir bændur, starfsfólk og viðskiptavini Kjarnafæðis, Norðlenska og SAH. Nú hefst sameiningarvinnan fyrir alvöru og við munum við nýta næstu vikur og mánuði til að  móta framtíðarsýn sameinaðs félags og fara í aðgerðir sem styrkja og bæta reksturinn til framtíðar. Markmiðið með sameiningunni er skýrt. Við höfum tækifæri til að búa til enn öflugra fyrirtæki í matvælaframleiðslu sem þjónustar á annað þúsund bændur, fjölbreytta flóru viðskiptavina og er með yfir 300 starfsmenn.“

Nánari upplýsingar veitir Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska í síma: 840-8801