Búist við þúsundum gesta í Íþróttahöllina

Sýningin MATUR-INN verður haldin á Akureyri í fjórða sinn um komandi helgi. Sýningin hefur verið haldin á tveggja ára fresti og verið fram að þessu í Verksmenntaskólanum á Akureyri en ljóst var eftir sýninguna árið 2007 að færa þyrfti viðburðinn í stærra hús, enda gestafjöldinn yfir 10 þúsund! Því verður sýningin nú á 800 fermetra svæði í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Sýningin MATUR-INN verður haldin á Akureyri í fjórða sinn um komandi helgi. Sýningin hefur verið haldin á tveggja ára fresti og verið fram að þessu í Verksmenntaskólanum á Akureyri en ljóst var eftir sýninguna árið 2007 að færa þyrfti viðburðinn í stærra hús, enda gestafjöldinn yfir 10 þúsund! Því verður sýningin nú á 800 fermetra svæði í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Óhætt er að segja að MATUR-INN 2009 sé hápunktur í norðlenskri matarmenningu. Sýningin er haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í góðu samstarfi við Þingeyska matarbúrið og Matarkistuna Skagafjörð. Að baki þessum félögum standa matvælaframleiðendur stórir sem smáir, veitingaaðilar, ferðaþjónustufyrirtæki, verslanir- og þjónustufyrirtæki - allt aðilar sem eiga það sammerkt að matur kemur við sögu í þeirra starfi. Á fjórða tug aðila tekur þátt í sýningunni MATUR-INN 2009 og verður fjölbreytni mikil.

Á sýningunni verða sýningarbásar fyrirtækja og matarmenningarfélaga, markaðstorg þar sem t.d. hægt verður að kaupa ferska haustuppskeru, kjötiðn verður sýnd, keppt verður í fiskisúpugerð, borgaragerð og síðast en ekki síst munu þjóðþekktir einstaklingar reyna með sér í matreiðslu. Gestir sýningarinnar mega vænta þess að fá ýmislegt gott að smakka í mat og drykk en ekki síður að geta gert góð kaup hjá sýnendum. Athygli er vakin á að keppnin í borgaragerð er öllum opin og upplýsingar um skráningu að finna á síðunni www.localfood.is.

Málþing um íslenskan mat verður kl. 13 á laugardag, samhliða sýningunni. Markmiðið með málþinginu er að efla umræðu um íslenskan mat og matarhefðir, jafnt meðal fagfólks sem almennings. Fyrirlesarar á málþinginu verða Laufey Haraldsdóttir, lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, Guðmundur Heiðar Gunnarsson, verkefnastjóri nýsköpunar og neytenda hjá Matís á Höfn í Hornafirði, Guðmundur Guðmundsson, matreiðslumeistari í Hótel- og veitingaskólanum í Kópavogi og  Nanna Rögnvaldardóttir, matreiðslubókarhöfundur. Málþingið er öllum opið.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun opna sýninguna MATURINN 2009 formlega í hádeginu á laugardag en sýningin verður opin  verður kl. 11 til 17 báða dagana. Og eins og áður segir er aðgangur ókeypis.