Nýtum matinn betur

Það má vel frysta pylsur segir Eðvald
Það má vel frysta pylsur segir Eðvald
Þessa dagana er aukin umræða um sóun á matvælum og meðferð okkar á náttúrunni. Við í Kjarnafæði höfum það að markmiði að vera ábyrgur matvælaframleiðandi og það er okkur hjartans mál að nýta hlutina vel, okkur og ykkur sem viðskiptavinum til hagsbóta.

Þessa dagana er aukin umræða um sóun á matvælum og meðferð okkar á náttúrunni. Við í Kjarnafæði höfum það að markmiði að vera ábyrgur matvælaframleiðandi og það er okkur hjartans mál að nýta hlutina vel, okkur og ykkur sem viðskiptavinum til hagsbóta. Hvað er það sem Kjarnafæði getur gert til að minnka þessa sóun?

Eðvald Valgarðsson gæðastjóri Kjarnafæðis nefnir þetta helst. „Við seljum á kostnaðarverði bein og fitu sem ekki er nýtt í vinnsluvörur í sósu og soðgerð. Við reynum alltaf að minnka umbúðir og þar með minnka  sóun á plasti. Allt plast sem hægt er að nýta er flokkað og sent til endurvinnslu. Þá reynum við eftir fremsta megni að nota margnota umbúðir og sendum því eins mikið og hægt er í plastkössum til viðskiptavina. Þegar pappaumbúðir eru notaðar þá eru þær ávallt endurvinnanlegar. Við flokkum allt hráefni eins og hægt er, jafnt lífrænt sem annað. Þá síum við allt vatn sem fer frá okkur til að skila náttúrunni eins hreinu vatni og hægt er. Þannig hugsum við um hringrás vatnsins.“

En hvað getur viðskiptavinurinn og neytandinn gert til að minnka sóun og hvernig er Kjarnafæði að hjálpa neytandanum við að minnka sóunina?

„Öll þekkjum við að skoða stimpil á vogarmiða sem segir okkur hvenær er seinasti söludagur. Kælivara hefur að meðaltali frá 5 til 45 daga í geymsluþol. Allt eftir því hvort varan er án allra aukefna en sum aukefni hægja á vexti örvera. En ef við byrjum að skoða af hverju vara hefur geymsluþol eða líftíma eins og við köllum það þá er það baráttan við örverurnar sem stýrir því. Allt í kringum okkur eru örverur og þær eru í samkeppni við okkur um matinn okkar. Ef þær ná að fjölga sér þá skemmist maturinn. Þegar við sem framleiðandi ákveðum geymsluþol þá sendum við vöruna í örverumælingu til rannsóknarstofu og í framhaldi af því ákveðum við dagafjöldann og merkjum vörun eftir því. En ef við fáum út úr rannsókn að vara sé í lagi í til dæmis 16 daga þá merkjum við hana með 14 dögum. Við viljum eiga inni daga fyrir þig sem viðskiptavin til að nýta vöruna eftir seinasta söludag. En það er samt sem áður þín meðhöndlun á geymslutímanum sem skiptir líka miklu máli. Flestar örverur vaxa hægar við kulda og því er það afar mikilvægt að geyma matvæli við eins lágan hita og hægt er. Okkar markmið í Kjarnafæði er ekki að geyma hráefnið okkar og vöru í 4°C heldur að hafa það í +0-1°C á meðan á framleiðslu stendur. Við reynum einnig að tryggja að varan hitni ekki í flutningi og sé eins köld og hægt er alla leið til þín sem viðskiptavinar. Síðan tekur neytandinn við keflinu þegar hann tekur vöruna með þér heim,“ segir Eðvald.

Þú talar um að það sé meðhöndlun viðskiptavinarins sem skiptir líka máli. Getur þú útskýrt það frekar?

„Já þú þarft að passa að stilla ísskápinn þinn á 0-4°C og geymdu matvælin innst í kælinum, þar er kaldast. Eftir að þú opnar pakkninguna eða umbúðirnar, hvort sem varan er með 5 eða 45 daga í geymsluþol þá  verðum við að gera okkur grein fyrir að dagstimpillinn gildir ekki lengur.  Geymsluþolið er bara nokkrir dagar í besta falli við góð skilyrði. Við erum búin að opna fyrir súrefni sem er blandað af öllu öðru sem er í ísskápnum og það  örvar örveruvöxt. Síðan er alltaf hætta á að óhreinindi komist í vöruna. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir að við höfum minnkað pakkningarnar okkar og þannig þarf maður síður að opna meir en maður vill nota hverju sinni.

Hvað með það ef við kaupum eitthvað og neytum þess ekki strax og það er jafnvel við það að renna út. Er þá einhver önnur lausn en að losa sig við það? Við þekkjum það öll að gleyma mat í ísskápnum. Við pöntum pizzu, förum út að borða og allt í einu er steikin, grillkjötið eða pylsurnar á seinasta degi eða útrunnið.

En það sem er hægt að gera er að frysta matvælin ef þú sérð að þau eru enn í lagi. Ef þú ætlar ekki að elda pylsurnar eða grillkjötið er ekkert að því að setja það í kistuna og neyta síðar. Venjulega getum við séð á vörunni ef hún er enn í lagi. Umbúðir bólgna ef varan er ekki neysluhæf. Þetta er engin töfralausn en við erum pínu föst í því í okkar neysluþjóðfélagi að velja allt ferskt en það er ekkert að því að eiga mat í frysti. Það kallar á smáskipulag og undirbúning en er ekki tilvalið um helgi að taka úr frystinum og elda eitthvað gott sem annars hefði verið hent. Verum vakandi hvað við kaupum og meðhöndlum matvæli af virðingu,“ segir Eðvald Valgarðsson gæðastjóri Kjarnafæðis.

Nú er það svo bara undir okkur komið að minnka ruslið og nýta matvöruna sem við kaupum sem allra best og reyna að láta ekkert eyðileggjast í ísskápnum.