Kokkalandsliðið fékk tvö gullverðlaun

Þeir sem stóðu að Kalda borðinu
Þeir sem stóðu að Kalda borðinu

Kokkalandsliðið fékk gull fyrir kalda borðið sitt í heimsmeistarakeppninni í Lúxemborg sem fram fór í vikunni. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland fær tvö gull í heimsmeistarakeppninni en liðið fékk gull fyrir heitu réttina sem keppt var í síðasta mánudag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá aðstandendum þess.

"Þetta er frábær árangur hjá liðinu. Við höfum lagt nótt við dag að gera borðið einstakt. Síðustu 18 mánuði höfum við æft stíft fyrir keppnina og það er að skila sér með þessum árangri. Gull í báðum greinunum sem við kepptum í er virkilega ánægjulegt. Í Kokkalandsliðinu er ungt fólk sem hefur náð vel saman í mjög ströngu ferli og hefur verið að leggja gríðarlega mikið á sig í undirbúningnum,” segir Þráinn Freyr Vigfússon fyrirliði Kokkalandsliðsins.

Þrátt fyrir að hafa fengið tvö gullverðlaun hafnaði íslenska liðið í 5. sæti en mörg lið geta fengið gull, silfur og brons í hverjum flokki. Er þetta besti árangur landsliðsins frá upphafi. Kjarnafæði er stoltur styrktaraðili landsliðsins og óskar þeim til hamingju með glæstan árangur. 

Í Kokkalandsliðinu eru: Hafliði Halldórsson framkvæmdastjóri liðsins, Þráinn Freyr Vigfússon fyrirliði Lava Bláa lónið, Viktor Örn Andrésson liðsstjóri Lava Bláa lónið, Fannar Vernharðsson VOX, Bjarni Siguróli Jakobsson Slippbarinn, Ylfa Helgadóttir Kopar, Hafsteinn Ólafsson Apótekið, Axel Clausen Fiskmarkaðurinn, Garðar Kári Garðarsson Strikið, Daníel Cochran Kolabrautin, Ari Þór Gunnarsson Fiskfélagið, Hrafnkell Sigríðarson Bunk Bar og María Shramko sykurskreytingarmeistari.