Kjarnafæði safnaði mest í Geðveikum jólum

Geðveik jól 2015
Geðveik jól 2015

Starfsfólk Kjarnafæði er að rifna úr stolti yfir því að hafa safnað mest í söfnuninni Geðveik jól árið 2015. Ekki nóg með það heldur er þetta hæsta upphæð sem safnast hefur í 5 ára sögu þáttanna. "Það er eingöngu fyrir tilstuðlan almennings og fyrirtækja sem við gátum gert það og kunnum við þeim öllum bestu þakkir fyrir. Það er ómetanlegt að finna fyrir þessum stuðningi í garð Styrkarfélags krabbameinssjúkra barna sem við ákváðum að styðja. Vonandi á þessi styrkur eftir að nýtast þeim vel," sagði Ólafur Már Þórisson markaðsstjóri Kjarnafæðis.

Söfnuninni lauk klukkan 17:00 í gær og þegar yfirlauk hafði Kjarnafæði safnað 1.663.500 krónum en Toyota veitti þeim harða keppni með 1.632.500 og Hamborgarabúllan hafnaði í þriðja sæti í söfnuninni með 682.000. Fyrir þetta fær Kjarnafæði þrjú bónus stig í keppninni um Geðveikasta jólalagið 2015 en dómnefnd gefur svo bæði lögunum og myndböndunum stig í lokakeppninni sem fram fer á morgun laugardag. Þátturinn hefst á RÚV klukkan 20:45.

"Auðvitað vonum við að lagið hafi fallið í kramið hjá dómnefndinni en það sem mestu máli skipti var að safna sem mestu fyrir þetta flotta styrkarfélag en eins og gefur að skilja vantar alltaf peninga í þessu styrktarfélagi eins og öðrum. Þess vegna hlakkar okkur mikið til að afhenda þeim styrkinn," bætti Ólafur við.