Gljáður hamborgarhryggur

Hér á eftir er einföld en góð uppskrift og eldunarleiðbeiningar að gljáðum hamborgarhrygg frá Kjarnafæði. Hér er ekkert að vera að flækja hlutina og fyrst og fremst er verið að gefa eldunarleiðbeiningar fyrir þennan hrygg. Varast skal að hafa hann á of miklum hita fyrst svo gljáinn brenni ekki. Þá má einnig skera í puruna rákir eða ferninga til að gefa purunni örlitla skorpu.

Hryggurinn

1,2 - 2 kg  Hamborgarahryggur úrbeinaður
5-6 sn. ananas


Sósa

½ lítri svínasoð 
  Smjörbolla 
Eitt af þessu  Sætt sinnep, ananas safi eða berjasulta. 
Eftir smekk Salt og pipar
Örlítið  Sósulitur 
Smá sletta   rjómi 

 

Við mælum með að nota kjarnhitamæli til að ná fram sem mestum gæðum í kjötinu. Hryggurinn er þá settur í fat með kjarnhitamælir og inn í ofn sem hefur verið forhitaður í 140 - 150°C. Það má vera með smá vatn í fatinu, jafnvel einn þriðja upp á hrygginn. Ef þið eruð ekki með kjarnhitamæli þá er æskilegt að láta hann vera í það minnsta 60 mínútur á hvert kg við þetta hitastig og hækka svo í lokinn..  

Þegar hryggurinn hefur náð þessu hitastigi 50 - 55°C má hækka hitann í 180 - 200°C þar til kjarnhiti hefur náð 68 - 70°C. Gott getur verið að setja smá annanas ofan á hrygginn áður en hitinn er hækkaður.
Mikilvægt er að leyfa kjötinu að hvíla í 10 til 15 mínútur eftir stærð, því stærri þeim mun lengri tími í hvíld áður en hann er skorinn. 

Sósan: Hellið soðinu í pott og látið suðuna koma upp.

Þykkið með smjörbollu eða sósujafnara og bragðið til með sætu sinnepi, safa af ananas, berjasultu eða því sem þið kjósið.  Þá má alltaf bæta við smá salti og pipar eftir smekk.

Bæta má rjóma út í og jafnvel sósulit í lokin.

Það má bera fram með t.d. rauðkáli, brúnuðu hvítkáli, Waldorf salati og sykurbrúnuðum kartöflum.