Sævar Jóhannesson útskrifaður

Sævar ásamt Hansínu Maríu meistara sínum
Sævar ásamt Hansínu Maríu meistara sínum

Sævar Jóhannesson starfsmaður og fyrrverandi nemi hjá Kjarnafæði þreytti sveinspróf í kjötiðn við Menntaskólann í Kópavogi þann 4. júní síðastliðinn. Óhætt er að segja að hann hafi staðið sig með stakri prýði. 

Sveinspróf í kjötiðn samanstendur af bóklegu og verklegu prófi. Í verklegu prófi eiga nemar að úrbeina nautalæri, hálfan grís, heilt lamb og hangiframpart. Hangiframparturinn er síðan vafinn á „gamla mátann”, einnig saga nemarnir heilt lamb í svokallaða sjö parta sögun. Við sögunina eiga nemarnir að saga annað lærið í sneiðar, annar framparturinn er sagaður í súpukjöt en hinn er sagaður í grillsneiðar, hálfur hryggur er sagaður í kótilettur en hinn er hafður heill. Nemarnir laga eina hrápylsu, eina farspylsu og eina lúxuspylsu en lúxuspylsan má ekki innihalda neinar sterkjur né bindiefni. Einnig senda nemarnir inn lúxusskinku sem er dæmd af prófdómurunum en hún verður að innihalda 95% kjöt 

Að sögn Sævars gekk prófið mjög vel og var hann mjög ánægður með afraksturinn enda hlaut hann hæstu samanlögðu einkunnina. Hansína María Haraldsdóttir var meistari Sævars. 

Kjarnafæði óskar Sævari innilega til hamingju með áfangann ásamt öðrum útskriftarnemum. Við erum stolt af því að hafa þennan flotta fagmann í okkar röðum. Þess má geta að eldri bróðir hans Hjörvar sem einnig er útskrifaður kjötiðnaðarmaður, vinnur einnig hjá fjölskyldufyrirtækinu Kjarnafæði.